Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) spáir 0,29% samdrætti í smásöluverslun um jólin á föstu verðlagi.
Nú þegar stutt er til jóla er gott að fara að huga að jólainnkaupunum en nokkuð ljóst er að landsmenn eru fyrr á ferðinni í ár heldur en oft áður vegna tilboðsdaga á borð við Dag einhleypra (e. Singles Day), Svartan föstudag (e. Black Friday) og NetMánudag (e. Cyber Monday). En hækkandi stýrivextir sem hafa hækkað greiðslubyrði húsnæðislána, 8% verðbólga og hækkun matarkörfunnar gefur í skyn að landsmenn hugi betur að veskinu í ár. Þó að við munum greina betur síðar hvernig landsmenn nýttu þessa þrjá tilboðsdaga að þá hefur það færst í aukana að fólk sé að klára jólainnkaupin fyrr en áður.
Einkaneysla hefur hækkað um 12,9% að meðaltali á árinu. Það má rekja til hækkun vöruverðs en innlend velta í dagvöruverslun hefur hækkað um 17,7% á árinu. Þá hefur verið aukning í smásöluverslun samkvæmt virðisaukaskattskýrslum um 10,1% á árinu. Þróun Kortaveltu RSV á árinu hefur sýnt að árið fór mun betur af stað en árið á undan en það hægðist svo á neyslunni þegar líða fór á haustið. Væntingavísitala Gallup hefur að meðaltali lækkað um 11,6% á árinu en væntingavísitalan metur stöðu efnahagsástandsins og atvinnuástandsins hverju sinni.
Spá RSV um jólaverslun 2023 gerir ráð fyrir 0,29% samdrætti í jólaverslun ársins á föstu verðlagi og spá RSV er að jólaverslun í smásölu verði 135,9 milljarðar króna en spáin nær yfir bæði nóvember og desember mánuð. Jólaverslunin árið 2022 var 126,1 milljarður króna.
Íslendingar hyggjast eyða 12.000 kr. minna í jólagjafir í ár en í fyrra
RSV gerði könnun í samstarfi við Prósent um hvað Íslendingar hyggjast eyða miklu í jólagjafir í ár. Íslendingar ætla að eyða um 99.000 kr. í jólagjafir í ár í samanburði við 111.000 kr. í fyrra. Það er 11,3% lækkun á milli ára.
Þá er lækkunin hlutfallslega mest hjá fólki 65 ára og eldri en konur eru líklegri til að eyða meiru í jólagjafir en karlar í ár. Gögnunum var safnað frá 9. til 20. nóvember 2023 og var úrtakið 1.800 manns en svarhlutfallið 52%.
Jólaspá RSV horfir til þróun kaupmáttar launa og vísitölu neysluverðs, þróun kortaveltu, þróun einkaneyslu, þróun smásöluverslunar samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum, vísitölu RSV um smásöluverslun og væntingavísitölu Gallup.