top of page

Kortavelta ferðamanna endurspeglar sóttvarnaráðstafanir

Kortavelta erlendra ferðamanna var áfram lág í ágústmánuði í samanburði við undanfarin ár. Á milli ára dróst veltan saman um 69% og nam 9,3 milljörðum kr.

Samanborið við júlí dróst veltan saman um 7% en bjartsýni varðandi aukinn ferðamannastraum í kjölfar heimsfaraldursins entist stutt þegar kynntar voru harðari sóttvarnarreglur á landamærunum 14. ágúst.

Netkaup ferðamanna gefa vísbendingar um hegðun í framtíðinni, þar sem keypt er t.d. gisting, skipulagðar ferðir o.s.frv. fram í tímann. Sé litið á vísitölu veltunnar eftir dögum í júlí og ágúst sést skýrt að hertar landamærareglur hafa haft áhrif á netkaup ferðamanna.

Velta í gistiþjónustu jókst um 4% í ágúst samanborið við júlí og nam velta flokksins 2,2 milljörðum í mánuðinum. Samanborið við ágúst í fyrra dróst veltan saman um 73% í gistiþjónustu.

Í flokki ýmissar ferðaþjónustu, sem inniheldur meðal annars skipulagðar ferðir og starfsemi ferðaskrifstofa var mikill samdráttur á milli ára, eða 84% samanborið við fyrra ár. Eftir aukningu í júlímánuði, sbr. við júní síðastliðinn, þá dróst veltan milli mánaða saman um 27% í ágúst.

Mesta velta var á kortum þýskra ferðamanna í ágúst, 1,9 milljarðar kr., bresk kort komu þar á eftir, 1,2 milljarða kr. Frönsk kort voru þriðju veltuhæst og veltu þau 829 milljónum. Mikill samdráttur varð á milli mánaða á veltu danskra korta eða 60%. Nam veltusamdráttur danskra korta því 1,1 milljarði í ágúst samanborið við mánuðinn á undan.


26 views
bottom of page