top of page

Jákvæð þróun í erlendri kortaveltu í apríl

Heildar greiðslukortavelta* nam 70,2 ma í apríl síðastliðnum og dregst því saman um 3% samanborið við mars en vex um +30% samanborið við apríl 2020. Innlend kortavelta óx um 26% og erlend kortavelta vex í fyrsta sinn á árinu, alls 202% milli ára.


Greiðslukortavelta Íslendinga hérlendis vex um 14,1 ma á milli ára (+26%). Á milli mánaða 2021 er hinsvegar -3 ma samdráttur (apríl vs. mars).


Erlend greiðslukortavelta nam 2,9 ma í apríl sl. samanborið við tæplega 1 ma í apríl 2020, milli mánaða (apríl vs. mars) óx veltan um 1 ma kr.


*Samanlögð innlend og erlend kortavelta í flokkunum verslun, þjónusta, opinber gjöld og úttektir á reiðufé.

Verslun og þjónusta

Heildar greiðslukortavelta í verslun og þjónustu í mars nam 67,3 ma og óx um 27% samanborið við apríl 2020 sem er auking um 14,2 ma. Á milli mánaða (mars vs. apríl) greinist hinsvegar 4% samdráttur, alls um 3 ma.

Verslun

Heildar greiðslukortavelta í verslun nam 39,7 ma í apríl 2021, vex um 14% milli ára (+5 ma), meðan -5% samdráttur mælist samanborið við mars 2021 (-2ma).


Hefðbundin verslun óx um 5,4 ma (+17%) milli ára. Aukning er í öllum helstu flokkum, 131% vöxtur er í fataverslun og 123% vöxtur í verslunum með heimilisbúnað, en samdráttur mælist hinsvegar í áfengisverslun, gjafa- og minjagripaverslun og bóka-, blaða- og hljómplötuverslun. Samanborið við mars 2021 dregst hefðbundin verslun hinsvegar saman um -2 ma milli mánaða (-5%). Samdrátturinn mælist í öllum helstu flokkum hefðbundinnar verslunar, mest í dagvöruverslun sem dregst saman um -1,1 ma, en aukning er hinsvegar í byggingavöruverslun sem vex um 3% og tollfrjálsverslun sem vex um 6% milli mánaða.

Í fyrsta sinn á árinu mælist samdráttur í vefverslun samanborið við fyrra ár, samtals -13% (-0,4 ma). Mestur samdráttur mælist í verslunum með heimilisbúnað (-0,268 ma) sem og raf- og heimilistækjaverslun (-0,156 ma). Samanborið við mars 2021 vex vefverslun hinsvegar um -0,125 ma milli mánaða (+5%). Aukningin er í dagvöruverslun (+6%), byggingavöruverslun (+26%), verslun með heimilisbúnað (+13%), lyfja-, heilsu- og snyrtivöruverslun (+17%) og gjafa- og minjagripaverslun (+3%). Fataverslun er á pari milli mánaða en samdráttur er í raf- og heimilistækjaverslun (-9%) og bóka-, blaða- og hljómplötuverslun (-5%). Vefverslun sem hlutfall af heildarverslun vex úr 6,3% í mars í 7,0% apríl 2021, en dregst samana um 2,1 prósentustig samanborið við apríl 2020.


Þjónusta

Velta í innlendri þjónustu vex um 50% á milli ára, var veltan í heildina 27,6 ma í apríl. Innlend þjónusta dregst hinsvegar saman um -4% á milli mánaða (-1 ma). Heildarvelta þjónustu í vefverslun var 6,3 ma, aukning um 34% milli ára en dregst saman um -1,5 ma milli mánaða 2021. Uppsöfnuð heildarvelta í þjónustu 2021 (jan – apríl) er 108 ma, samanborið við 102 ma 2020 og 120 ma 2019.

Erlend kortavelta

Jákvæð þróun mælist áfram í erlendri kortaveltu milli ára. Í apríl 2021 nam erlend kortavelta 2,9 ma, samanborið við 0,95 ma 2020. Netverslun á erlendum kortum í gistiþjónustu óx td. um 124% í apríl, úr 0,5 ma í 1 ma og bílaleigur uxu úr 0,1 ma í 2,3 ma og ýmis ferðaþjónusta fór úr 0,4 ma í 6,2 ma. Gefur það vísbendingar um að ferðamenn séu farnir að skipuleggja ferðir hingað til lands í sumar. Vöxtur í erlendri kortaveltu mælist einnig áfram milli mánaða, +0.95 ma (+50%).

Um gögnin

• Upplýsingar byggðar á kortaveltugögnum frá færsluhirðum, nánar tiltekið Valitor, Borgun, Kortaþjónustan og Netgíró (kortavelta frá Pei og Síminn Pay eru ekki innifalin). Gögnin koma frá færsluhirðum niðurbrotin á verslun og vefverslun.

• Gögnin innhalda ekki einkaneyslulán (raðgreiðslur, yfirdráttur o.þ.h).

• Tímabilið er almanaksmánuðir (ekki hefðbundið kortatímabil).

• Gögnin innhalda bæði debet og kreditkort, einstaklinga og fyrirtækja (Fyrirtækjakort c.a. 8% af veltunni fyrir árið 2020).

• Gögnin sýna þróun á breytilegu verðlagi.

132 views
bottom of page