Erlend netverslun enn á uppleið
RSV hefur birt uppfærðan netverslunarvísi fyrir erlenda netverslun í september 2024, og sýna tölur að Íslendingar hafa eytt ríflega 27 milljörðum króna í erlendar netverslanir það sem af er ári. Þetta er veruleg aukning frá 19 milljörðum á sama tímabili í fyrra.
Ef þessi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að heildarverslun Íslendinga í erlendum netverslunum náð hátt í 44 milljörðum króna á þessu ári. Til að setja tölurnar í samhengi nam heildarkortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi í júlí tæpum 48 milljörðum króna, samkvæmt Seðlabanka Íslands.
Í september nam netverslun Íslendinga í erlendum netverslunum 4,34 milljörðum króna, sem er 14% aukning frá ágúst sl. sem einnig var met mánuður. Miðað við september í fyrra hefur erlend netverslun aukist um 92%.
2 milljarðar í netverslun frá Eistlandi
Í síðasta mánuði birti RSV frétt um aukna netverslun frá Eistlandi, þar sem mánaðarlegt meðaltal hafði farið úr 5,9 milljónum króna í 850 milljónir króna. Sú aukning hefur nú vaxið enn meira, þar sem netverslun frá Eistlandi rúmum 2 milljörðum króna í september, eða yfir 45% af heildarnetverslun Íslendinga erlendis þann mánuðinn. RSV hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir um þessa þróun, og er talið að hluta af aukningunni megi rekja til opnunar dreifingamiðstöðva kínverskra stórfyrirtækja í Eistlandi. Til að mynda eru að berast sendingar af Ali Express og Temu frá Eistlandi.
Greiningar RSV
Frekari upplýsingar og nánari greiningar um íslenska verslun er hægt að nálgast inn á Veltunni (veltan.is), gagnagrunni RSV. Greiningarnar eru flokkaðar gróflega niður í undirflokka út frá tollgögnum og er einnig haldið utan um fjölda tolllína og sendingarlönd. Fyrirtækjum stendur einnig til boða að kaupa ítarlegri greiningar sé þess óskað frá RSV.