Smásöluvísitala: maí 2019
Fast verðlag; 12 mán breyting
+13,7%
Dagvara
Smásöluvísitala
0
0
Kortanotkun erlendra ferðamanna maí 2019
12 mán breyting
20. september 2018 09:50

Íslensk fataverslun tekur við sér

Nýjar hagtölur um greiðslumiðlun |Póstdreifing stendur netverslun fyrir þrifum | Fataverslun á Íslandi tekur við sér | Raftækjaverslun var ágæt fyrir HM

 

 

Nýjar hagtölur um veltu og greiðslumiðlun

Í nýjum hagtölum verður hægt að fylgjast mánaðarlega með kortaveltutölum eftir tegund verslana, flokkað eftir netverslun og hefðbundinni verslun auk kortaveltu erlendra ferðamanna.

Rannsóknasetur verslunarinnar kynnir nýjar hagtölur sem byggja á kortanotkun og greiðslumiðlun á Íslandi. RSV hefur frá 2013 birt tölur um kortaveltu erlendra ferðamanna sem unnar hafa verið úr gögnum innlendra færsluhirða. Nú lítur dagsins ljós ítarlegri tölfræði á sama grunni sem einnig inniheldur kortaveltu Íslendinga hérlendis. Auk þess að sundurgreina tölurnar eftir tegundum verslana og þjónustufyrirtækja er hægt að greina á milli veltu þess sem keypt er um netverslun eða ekki. Grunngögn eru fengin frá Borgun, Valitor, Kortaþjónustunni og Netgíró.

Hér má sjá nýja töflu yfir kortaveltu Íslendinga hérlendis

Tölunum er ætlað að vera fyrsta vísbending um neyslubreytingar í samfélaginu og verða birtar mánaðarlega.

 

Póstdreifing stendur netverslun fyrir þrifum

Nýverið gerði Rannsóknasetur verslunarinnar tvær kannanir á viðhorfi til netverslunar, aðra meðal neytenda og hina meðal stjórnenda verslunarfyrirtækja. Athygli vekur að í báðum þessum könnunum er póstdreifing nefnd sem helsta áskorun netverslunar. Þegar neytendur voru spurðir hverju helst þyrfti að breyta eða bæta til að auka kaup þeirra á netinu nefndu flestir þætti á borð við ódýrari sendingakostnað, fljótvirkari afhendingu eða fleiri afhendingakosti. Þegar stjórnendur íslenskra netverslana voru spurðir um helstu ógnir í netverslun þeirra var hár sendingakostnaður oftast nefndur og hann sagður hamla vexti netverslunar. Einn viðmælenda í könnuninni sagði ódýrara fyrir hann að senda vöru frá Kína til Ísafjarðar en frá Reykjavík til Ísafjarðar. Kannanirnar voru gerðar við vinnslu skýrslunnar Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni, en meðal annarra niðurstaðna skýrslunnar er að Íslensk netverslun sé skemra á veg komin en í nágrannalöndunum, þrátt fyrir mikla netvæðingu Íslenskra heimila. Ekki er auðvelt að festa fingur á hve stóran hluta ástæðu þess má rekja til hærri sendingakostnaðar hérlendis en má þó ætla að hann eigi sinn þátt.

 

Fataverslun á Íslandi tekur við sér

Kortavelta Íslendinga í innlendri fataverslun jókst um 13,1% í ágúst síðastliðnum og nam tæpum 2,2 milljörðum í ágúst nú samanborið við rúman 1,9 milljarða í ágúst í fyrra. Raunar hefur fataverslun einnig vaxið undanfarna mánuði og hefur kortavelta í flokknum aukist um 17% ef tímabilið apríl til ágúst 2018 er borið saman við sama tímabil í fyrra, eða sem nemur 1,6 milljörðum yfir tímabilið. Er þetta til marks um ágætan kaupmátt landsmanna þessi misserin og þá kann opnun H&M hérlendis í lok ágúst í fyrra að skýra vöxtinn að hluta. Netverslun Íslendinga hjá innlendum netverslunum með föt jókst á sama tímabili um 29% og nam 379 milljónum í samanburði við ríflega 11 milljarða í búðum og nam netverslunin því 3,4% af kortaveltu flokksins.

Raftækjaverslun var ágæt fyrir HM í fótbolta

Maí- og júnímánuðir standa nokkuð upp úr þegar kortavelta í raf- og heimilistækjum er skoðuð í samanburði við mánuðina í kring. Þannig jókst velta raftækja um 11,5% í júní og júlí, frá sömu mánuðum í fyrra, samanborið við hóflegri vöxt mánuðina áður og nokkurn samdrátt í júlí. Ekki er ólíklegt að heimsmeistaramótið í fótbolta sem hófst í júní hafi átt sinn þátt í aukningunni og margir hafi ákveðið að endurnýja sjónvarpstækin fyrir keppnina.

Raf- og heimilistækjaverslun er sú gerð verslunar sem er hvað lengst komin í netverslun en 7,8% þeirrar verslunar fór í gegn um netið í ágúst síðastliðnum. Hlutfallið sveiflast þó nokkuð milli mánaða en sem dæmi fór það hæst í 12,2% í nóvember 2017 í tengslum við Svartan föstudag (Black friday) og netmánudag (Cyber Monday).

Senda á Facebook
Rannsóknarsetur verslunarinnar
Saga RSV
Erlend verkefni

Rannsóknasetur verslunarinnar,
Bifröst, 
311 Borgarbyggð,
Sími: 533 3530.

GSM: 868 4341 eða 868 8825.

 

Forstöðumaður:

Árni Sverrir Hafsteinsson

Póstfang: arni@bifrost.is

Sími: 868 4341

Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004.
Að því standa, Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytið, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu, VR, Háskólinn á Bifröst og  Bílgreinasambandið.

Þá aflar rannsóknasetrið sértekna með rannsóknastyrkjum og tekna vegna verkefnavinnu fyrir einstök fyrirtæki, hagsmunasamtök og opinbera aðila.